Sá gjörningur að merkja lóð með hnitum gengur undir ýmsum nöfnun. Hægt er að tala um að kortleggja lóð, hnita lóð og mæla upp lóð.
Afmörkun lóða er best að vinna þannig að mælingamaður kemur á staðinn. Notað er mælitæki sem notar GNSS tækni og GNSS kerfið sem samanstendur af gervitunglum á braut um jörðu sem hægt er að nota til að reikna út staðsetningu. GPS kerfið er t.d. eitt af þessum staðsetningarkerfum. Venjulegt gps tæki og símar nota fá gervitungl og skekkjan getur verið nokkrir metrar, frá 2 m upp 8 og flöktið talsvert. Skekkja upp á 2 m skiptir kannski litlu máli þegar verið er að taka ljósmynd eða skrá skokkið eða hjólatúrinn en þegar kemur að lóð og landamerkjum geta 2 m verið talsverður munur. Flestir vilja ekki að landamerki færist frá skilgreindum staur út á tún eða að landamerki lendi á lóð hjá nágrannanum.
GNSS tæknin nýtir fleiri gervitungl til að fá nákvæmari mælingu. Að auki er notuð svokölluð staðbundin leiðrétting sem reiknar enn betur út staðsetningu og þá fer nákvæmnin niður í 1 cm. Staðbundin leiðrétting er alltaf mikilvæg og sérstaklega á Íslandi sem rekst í sundur um u.þ.b 1 cm á hverju ári. Ýmsir aðilar á Íslandi selja staðbundna leiðrétting og einnig halda Landmælingar Íslands úti grunnstöðvaneti og opnu mælikerfi.
Skipulagsfulltrúar sveitarfélaga en stofnun lóða fer í gegnum embætti skipulags og/eða byggingafulltrúa.
Umhverfis- og tæknisvið uppsveita sér um skipulags- og byggingamál fyrir sveitarfélaganna Grímsnes- og Grafningshrepps, Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Flóahrepps og Ásahrepps.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er nú með fasteignaskrá og landeignaskrá
Lög um skráningu og mat fasteigna þar segir m.a. "Kortagrunnur landeignaskrár skal vera aðgengilegur almenningi á rafrænu formi og án endurgjalds þar sem sýndar skulu upplýsingar um eignamörk lands sem greind eru eftir skráningarnúmeri. "
Fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Landmælingar eru með mikinn fróðleik á vefsíðu sinni, lmi.is og margt má skoða á vefsjá Landmælinga
Á Jarðavef Þjóðskjalasafns Íslands má fletta í gegnum jarðamerkjabækur. Í þær eru skráðar lýsingar á landamerkjum fjölmargra jarða á Íslandi og skrifað undir af eigendum og fulltrúum yfirvalds. Mörg þessara landamerkja eru enn í gildi. Hægt er að skoða skönnuð eintök af handskrifuðum texta en einnig er hægt að lesa uppskrifuð eintök sem skrifuð eru af starfsfólki Þjóðskjalasafns.
Hér er dæmi um mörk Breiðabólsstaðar í Borgarfirði, skrifað upp eftir lýsingunni:
Á mill Reykholts og Breiðabólsstaðar eru merki við vörðu á hjá kirkjumelnum sem er hornmark milli Norður-Reykja og Breiðabólsstaðar á aðra hlið síðan á vörðu á melnum litlu sunnar, þaðan sjónhending og rjett fyrir vestan túnið á Breiðabólstað og í jarðfastan sten við veginn milli Reykholts og Breiðabólstðar, þaðan sjónhending um mitt mýrar sundið sem liggur í gegnum móannn niður að Stórueyri og niður til Reykjadalsár beina stefnu á Hægindakotshver. Að sunnan ræður Reykjadalsá. Að austan eru merkin, úr Reykjadalsá, austanvert við gamlar rjettir, þvert yfir móann og Úlfstaðasýkið á syðri enda garðlags þess, sem er á mýrinni fyrir norðan sykið, þá ræður garðlagið, en úr efri enda garðlagsins upp í stein þann sem stendur á holtinu og sjónhendingu úr honum í Breiðavatn og yfir vatnið þvert norður á landbrotið sem einnig heitir Rauðilækur. Þá ráða austurdrög Rauðalækjar eftir uppsettum merkjum, vörðu, sem er hirnmark á millum Breiðabólsstaða og Norður-Reykjav.
Þaðan í norðurátt á vörðu við skurð við kirkjumelinn og þaðan í sömu stefnu á vörðu á melnum og úr henni á vörðuna sem er til útsuðurs fyrst er nefnd hornmark á millum Norður-Reykja og Breiðabólstaðar.
Í janúar 2024 tóku gildi ný lög sem breyta því hvernig lóðir og jarðir eru skráðar inn í landeignaskrá. Lagabreytingarnar heita: Lög um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.). Lög nr. 74 28. júní 2022. Í febrúar kom svo reglugerð sem útlistir nánar breytinguna, 160/2024. Reglugerð um merki fasteigna.
Helstu breytingar eru að búið er til starfsheitið merkjalýsandi og þeir einir mega hnita merki fasteigna, gera merkjalýsingu og skrá merki í fasteignaskrá. Einnig er búið til fyrirbærið merkjalýsing sem kemur í stað hefðbundinna lóðablaða og landamerkjauppdrátta.
Í reglugerð segir um merkjalýsingu:
Skylt er að gera merkjalýsingu þegar ný fasteign er stofnuð eða sameinuð annarri, þegar merkjum eldri fasteigna er breytt eða þegar merki eru mæld upp og hnitsett að nýju. Þá er einnig skylt að gera merkjalýsingu ef merki eru óglögg eða óljós, einnig skal gera merkjalýsingu ef sameignarlandi er skipt í séreignahluta. Tilgangur merkjalýsingar er að skýra hver merki eignar eru, hvaða landeignir eiga merki saman, hvert eignarhlutfall er í séreignar- og sameignarskikum ásamt því að lýsa réttindum, ítökum og kvöðum fasteigna. Merkjalýsingu er ætlað að samræma og formfesta vinnubrögð merkjalýsenda.
Merkjalýsing inniheldur upplýsingar um upprunalandið, stærð, lögun og hnitsetta afmörkun nýrrar lóðar, tæknilegar upplýsingar um hnitun (nákvæmni og þess háttar), um mannvirki á jörð (ef einhverjar eru) og skjöl sem stuðst er við (svo sem afsöl, landamerkjalýsingar og þannig). Þarna er í raun tekið saman í eitt skjal allt sem viðkemur landeign og því sem þarf til að stofna nýja landeign.
Inn á Íslandskort.is má skoða kortasögu Íslands, allskonar gömul íslandskort. Þau eru í góðum gæðum og viðmót er þægilegt.
Þarna eru herforingjaráðskortin, atlaskortin, og svo 19. aldar kort og miklu, miklu eldri kort.